Zuckerberg maður ársins hjá Time

Tímaritið Time hefur valið Mark Zuckerberg, forstjóra og stofnanda Facebook, mann ársins 2010. Tímaritið segir að hann sé sá einstaklingur sem hafi haft einna mest áhrif á viðburði ársins sem nú er að líða.

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var kjörinn áhrifamesti maður ársins í könnun sem var gerð á meðal lesenda Time.

Fjallað er um Zuckerberg, sem er aðeins 26 ára gamall, í kvikmyndinni The Social Network, sem fjallar um uppgang samskiptavefsíðunnar Facebook, en myndin hefur hlotið lof gagnrýnenda.

Frá því á þriðja áratugi síðustu aldar hefur Time kosið mann ársins, sem prýðir svo forsíðu tímaritsins.

Ritstjórar Time hafa veitt þessa viðurkenningu þeim einstaklingi eða einstaklingum sem hafa haft mikil áhrif á heimsviðburði, annaðhvort með jákvæðum eða neikvæðum hætti. 

Adolf Hitler, Jósef Stalín og Ayatollah Khomeini eru t.d. á meðal þeirra sem hafa hlotið þessa viðurkenningu.

Ben Bernanke, seðlabankastjóri var valinn maður ársins hjá Time í fyrra, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, árið þar áður.

Umfjöllun Time.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert