Enginn manngerður hlutur hefur farið jafn langt út í geiminn og Langförull eða Voyager I. sem Bandaríkjamenn skutu á loft í september 1977, rétt á eftir systurfarinu Voyager II.
Hefur Voyager I. lagt að baki liðlega 17 milljarða kílómetra á 33 ára siglingu sinni um geiminn og nálgast útjaðar sólkerfisins. Fjarlægðin er svo mikil að útvarpsbylgjur eru sextán stundir að berast til jarðar.
Vísindamenn segjast merkja það á öreindaflæðinu um geimfarið að það sé að komast að ystu mörkum sólkerfisins, að sögn vefsíðu Jyllandsposten. Öreindirnar eða sólvindarnir koma frá sólinni, flæðið hefur til þessa verið á móti Voyager en er nú á hlið.
Á óvart hefur komið hve vel farið endist en hraðinn á því er um 61 þúsund km á klukkustund. Öll mælitækin í báðum hnöttunum virka enn snurðulaust.
Hópur vísindamanna undir forystu stjörnufræðingsins Carls Sagan fékk það hlutverk að safna saman margvíslegum upplýsingum um jörðina og koma þeim fyrir á gylltum mynd- og hljóðdiski, eintak er í báðum Voyager-förunum. Um er að ræða ljósmyndir af jörðinni og lífverum á henni, vísindagögn, kveðjur frá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og forseta Bandaríkjanna, einnig hljóð frá hvölum, barnsgrátur, öldugjálfur við strönd og margs konar tónlist.
Hugmyndin var að færi svo að verur af öðrum hnöttum fyndu hnöttinn myndu þær geta fræðst um jarðarbúa. En sumir vöruðu við því að óvinveittar geimverur gætu misnotað upplýsingarnar og gert árás.
Traust smíði