Íslenskur prófessor, Bernhard Pálsson, hefur verið ráðinn til að stýra nýrri rannsóknarmiðstöð í Danmörku sem ætlað er að stuðla að sjálfbærum lífefniiðnaði í heiminum. Hafa 700 milljónir danskra kr. (um 15 milljarðar kr.) verið veittir til verkefnisins.
Það er Novo Nordisk Foundation sem veitir Tækniháskóla Danmerkur (DTU) styrkinn, sem skólinn segir að sé sögulegur. Í tilkynningu sem DTU hefur sent frá segir m.a. að markmiðið sé að Danmörk verði leiðandi í því að þróa sjálfbæran lífefnaiðnað í heiminum.
Fram kemur í tilkynningu að í dag séu plastpokar, leikföng, tækjabúnaður á sjúkrahúsum, krabbameinslyf, eldsneyti og margt fleira búið til úr efnum sem unnin séu úr olíu, m.a. hráolíu.
Markmiðið er hins vegar hverfa frá því að nota olíu og framleiða þessar vörur á sjálfbæran hátt með lífefnalegum aðferðum eins og kostur er. Til að svo megi verða verði að lagst í umfangsmiklar rannsóknar á lífefnaiðnaði. Því hefur rannsóknarmiðstöðin, sem nefnist The Novo Nordisk Foundation Center for Biosustainability verið sett á stofn.
Þar munu margir heimsþekktir vísindamenn, sem eru leiðandi á sínu sviði, vinna að rannsóknarstörfum. Bernhard Pálsson, sem starfar sem prófessor Kaliforníuháskóla í San Diego í Bandaríkjunum og er jafnframt gestaprófessor við Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn sem forstjóri miðstöðvarinnar.
Upplýsingar um rannsóknarmiðstöðina.