Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu segjast hafa þróað aðgerðir til að bæta svonefnt PSA blóðpróf, sem notað er til að greina blöðruhálskrabbamein. Þetta kemur fram í grein, sem birt er á vef tímaritsins Science Translational Medicine.
PSA próf mælir efni sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Blöðruhálskrabbamein getur verið til staðar þótt það greinist ekki í PSA prófi. Þá geta karlmenn með hátt PSA gildi verið alheilbrigðir en jafnframt er hætta á að sjúkdómurinn greinist ekki hjá þeim, sem hafa lágt PSA gildi.
Í greininni, sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og fleiri vísindamen hafa skrifað, kemur fram að magn PSA í heilbrigðum karlmönnum sé mjög misjafnt. Nú hafi tekist að þróa erfðafræðilegar aðferðir til að meta hvað sé eðlilegt PSA magn í hverjum og einum.
Rannsókn vísindamannanna byggðist á sýnum úr nærri 16 þúsund íslenskum karlmönnum og 454 breskum mönnum, sem ekki höfðu greinst með blöðruhálskrabbamein. Leiddi rannsóknin í ljós að fjórir tilteknir erfðaefnisbútar tengdust PSA magni í líkamanum. Því sé hægt að bæta PSA prófin með því að greina þessa fjóra búta fyrst.
Ár hvert greinast hér á landi um 125 karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli og
um 40 látast úr sjúkdómnum, að því er kemur fram á vefnum doktor.is. Tveir af hverjum þremur eru komnir yfir
sjötugt þegar meinið greinist og sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur hjá
karlmönnum undir fimmtugu.