Búist er við því að bandaríska fjarskiptanefndin (FCC) muni samþykkja umdeildar reglur sem snúast um það hvernig netinu er stjórnað. Nefndin mun greiða atkvæði um reglur er varða hlutleysi á netinu, sem snúast um að tryggja að öll netumferð verði meðhöndluð með sama hætti.
Reglurnar hafa verið gagnrýndar fyrir það að ólíkar staðlar verði settir fyrir fyrirtæki sem veita netþjónustu í gegnum breiðband og þá sem veita netþjónustu í gegnum farsíma, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.
Segja embættismenn að ef þetta verði samþykkt þá sé þetta í fyrsta sinn sem nefndin hafi í höndunum reglur um það hvernig stjórna eigi netinu, sem hægt sé að fylgja eftir.
BBC skýrir frá að undanfarin fimm ár hafi menn deilt um það hvernig best sé að tryggja frjálst upplýsingaflæði á netinu.
Bent er á að neytendur séu í síauknum mæli farnir að nota snjallsíma til að komast á netið og snúa sér að netinu til þess að horfa á sjónvarpsþætti.