Þýsk stjórnvöld segja að tölvuárásum í landinu hafi fjölgað á árinu sem er að líða og að þær eigi flestar rætur að rekja til Kína. Ríkisstjórn Þýskalands hyggst setja á laggirnar sérstaka miðstöð á næsta ári sem ætlað er að sporna gegn slíkum árásum í framtíðinni.
„Svokallaðar rafrænar árásir hafa aukist mjög mikið á tölvunet þýskra stjórnvalda og sveitastjórna,“ segir Stefan Paris, innanríkisráðherra Þýskalands.
„Þýskland er mjög tæknivætt land sem býr yfir mikilli kunnáttu og reynslu, og það kemur því ekki á óvart að margir vilji komast yfir þessa þekkingu,“ segir hann og bætir við að Kína komi þarna mikið við sögu.
Alls voru 1.600 slíkar árásir skráðar á fyrstu níu mánuðum ársins. Miðað við sama tímabil í fyrra þá voru árásirnar um helmingi færri, eða um 900. Paris bendir á að menn hafi eflast ekki orðið varir við fjölmargar árásir. Þetta séu því aðeins yfirlit yfir það sem hafi verið skráð.
Þá bætir hann við að aukninguna megi að hluta rekja til þess að starfsemi þýskra stjórnvalda sé sífellt að verða rafrænni og færist í auknum mæli á netið.
Þýska tölvuvarnarmiðstöðin verður sett á laggirnar til að halda utan um úrræði og þekkingu ólíkra ríkisstofnana, m.a. alríkislögreglunnar, leyniþjónustunnar og ýmissa einkafyrirtækja.