Breyttir hafstraumar stýra veðri

Talið er að harða vetur í Evrópu og sumarþurrka í …
Talið er að harða vetur í Evrópu og sumarþurrka í Rússlandi megi rekja til breyttra hafstrauma í N-Atlantshafi. mbl.is/Þorkell

Vísindamenn hafa fundið vísbendingar um miklar breytingar á hafstraumum í Norður-Atlantshafi frá 8. áratug síðustu aldar. Straumarnir hafa áhrif á veðurfar á norðurhveli jarðar, að því er svissneskir vísindamenn greindu frá í dag.

Hópur lífefnafræðinga og haffræðinga frá Sviss, Kanada og Bandaríkjunum greindi breytingar á djúpsjávar kóröllum í Atlantshafi sem bentu til þess að áhrif kalda norðlæga Labradorstraumsins væru að dvína. Straumurinn kaldi mætir hlýjum Golfstraumnum sem kemur úr suðri.

Fram kemur í PNAS, riti bandarísku vísindaakademíunnar (The US National Academy of Science) að breytingin frá því snemma á 8. áratug 20. aldar sé „að mestu leyti einstök með tilliti til síðustu 1.800 ára“. Talið er að hún geti verið í beinum tengslum við hnattræna hlýnun.

Kaldi Labradorstraumurinn og Golfstraumurinn hlýi eru liðir í flóknu samspili veðurfarslegra þátta sem kenndir eru við „Norður-Atlantshafs sveifluna“ en hún ræður miklu um veðurfar í Evrópu og Norður-Ameríku.

Vísindamenn hafa bent á truflun eða breytingu á sveiflunni sem skýringu á rökum eða hörðum vetrum í Evrópu og miklum sumarþurrkum í Rússlandi á nýliðnum árum.

Carsten Schubert, við svissneska stofnun um haffræði og tækni (EAWAG), er einn vísindamannanna fimm sem greindu frá breytingunni. Hann lagði áherslu á að pólstraumurinn, sem kenndur er við Labrador, og streymir frá íshafinu norðan við Kanada og suður með Nýfundnalandi hafi verið ráðandi afl í næstum 2.000 ár.

Hins vegar virðist það mynstur einungis hafa verið ríkjandi af og til á undanförnum áratugum.

„Suðlægi hafstraumurinn hefur nú tekið yfir, það er raunverulega róttæk breyting,“ sagði Schubert í samtali við AFP fréttastofuna. Hann benti á sannanir fyrir hlýnun hafsins í Norðvestur-Atlantshafi.

Í rannsókninni var stuðst við magn köfnunarefnisísótópa í 700 ára gömlum kóralrifjum á hafsbotninum en kóraldýrin nærast á lífrænum efnum sem sökkva til botns.

Sjórinn í Golfstraumnum er saltur og ríkur af næringarefnum en kaldur Labradorstraumurinn frá pólsvæðinu er næringarsnauðari. Hægt var að tímasetja breytingarnar út frá vaxtarhringnum kórallanna. 

„Vísindamennirnir telja að það séu bein tengsl á milli breyttra hafstrauma í Norður-Atlantshafi og hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum,“ sagði m.a. í yfirlýsingu EAWAG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert