Vísindamenn við háskólann í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum telja sig hafa komist að raun um hvers vegna karlmenn verða sköllóttir. Þeir segja að þetta snúist ekki einvörðungu um hárlos, heldur frekar um það hvernig ný hár verða til.
Að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins snýst þetta um „framleiðslugalla“. Nýju hárin séu svo lítil að þau sjáist ekki. Í staðinn sjá menn skalla eða há kollvik.
Niðurstöður vísindamannanna eru birtar í Journal of Clinical Investigation. Þeir segja að rekja megi þennan galla til stofnfruma sem búa til hár, og byggja niðurstöður sínar á hárnákvæmum vísindum.
Þeir vonast til þess að hægt verði að finna „lækningu“ við skalla, með því að laga stofnfrumurnar. Þ.e. að þær starfi með eðlilegum hætti.
Líklegast yrði meðalið krem sem menn myndu bera á hársvörðinn. Þannig myndi hárframleiðslan, eða hárvöxturinn, aftur verða eðlilegur.