Fáeinir „smókar“ úr vindlingi geta á nokkrum mínútum valdið skemmdum á erfðaefni sem tengjast krabbameini. Þetta kom fram í rannsókn sem bandrískir vísindamenn greindu frá í gær. „Áhrifin eru svo bráð að þau jafnast á við að efninu sé sprautað beint í blóðrásina,“ sögðu vísindamennirnir.
Þeir telja að þessi uppgötvun ætti að vera mikil viðvörun fyrir reykingafólk. Rannsóknin er sögð vera sú fyrsta þar sem fylgst er með því hvernig tiltekin efni í tóbaki valda skemmdum á DNA erfðaefninu. Grein um rannsóknina birtist í ritrýndu vísindatímariti, Chemical Research in Toxicology, sem er gefið út af The American Chemical Society.
Vísindamennirnir rannsökuðu tólf sjálfboðaliða sem reyktu. Þeir fylgdust með mengandi efnum sem kölluð eru PAH (polycyclic aromatic hydrocarbons) og berast með tóbaksreyk en finnast einnig í kolareyk og viðbrunnum grillmat.
Sérstaklega var fylgst með einni tiltekinni gerð þessara efna, phenanthrene sem finnst í vindlingareyk, og hvernig það barst í blóðinu. Vísindamennirnir sáu þetta efni mynda eitrað efnasamband sem þekkt er að því að „rústa DNA og valda stökkbreytingum sem geta valdið krabbameini“.