Spánverjar eru duglegastir þjóða heims við að hala ólöglega niður tónlist á Netinu. Samkvæmt skýrslu alþjóðlegra samtaka plötuútgefanda er ólöglegt niðurhal nærri tvisvar sinnum algengara á Spáni en annars staðar í Evrópu að meðaltali.
Í skýrslu samtakanna er heill kafli tileinkaður Spáni en þar kemur fram að 45% af spænskum netnotendum noti síður sem dreifi tónlist á ólöglegan hátt. Á eftir Spáni kemur Brasilía þar sem 44% nota slíkar síður til að niðurhala tónlist. Í Evrópu er meðaltalið 23%. Spænska dagblaðið El País segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.
Sala á tónlistardiskum á Spáni, hvort sem það er löglega á Netinu eða í plötubúðum, dróst saman um 21% á síðasta ári. Árið 2004 seldust um 26 þúsund plötur á viku en árið 2010 var sá fjöldi kominn niður í sex þúsund eintök.
Fram kemur í skýrslu samtaka tónlistarútgefenda að það séu nýir og lítt þekktir tónlistarmenn sem tapi mest á þessari þróun en sala á plötum þeirra hafi dregist saman um 77% á milli áranna 2003 og 2010. Ástæðan er sögð sú að stóru útgáfufyrirtækin séu hætt að leggja fé í upprennandi tónlistarmenn og einbeiti sér frekar að þekktum nöfnum þar sem hagnaðarvonin sé meiri.
Þrátt fyrir þetta hefur hlutdeild stafrænnar tónlistar í plötusölu aukist í heiminum um 29% en árið 2004 var hún aðeins um 2% af tekjum útgáfufyrirtækjanna.