Skyndifæði verði ekki selt í skólum

Offita barna er víða vandamál.
Offita barna er víða vandamál. AP

Ekki ætti að selja skyndifæði í skólum eða á leiksvæðum. Þetta er ein tillagna Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem miða að því að draga úr offitu á meðal barna og hvetja til heilbrigðs mataræðis.

Stofnunin gengur þó ekki svo langt að kalla eftir banni á auglýsingum sem beinast að börnum fyrir matvörur sem innihalda mikla mettaða fitu, sykur eða salt. Þess í stað óskaði WHO eftir því að aðildarríkin reyndu að finna skilvirkustu leiðina til þess að draga úr slíkri markaðssetningu.

Tillögur stofnunarinnar eru ekki bindandi og verða þær lagðar fyrir á fundi háttsettra ráðamanna á allsherjarþingi WHO í New York í september á þessu ári.

„Staðir þar sem að börn safnast saman ættu að vera lausir við allar tegundir af markaðssetningu á matvælum sem innihalda mikið af mettaðri fitu, transfitusýrum, sykri eða salti. Slíkir staðir eru til dæmis, en ekki eingöngu, dagheimili, skólar, skólalóðir, forskólar, leikvellir, læknastofur fyrir fjölskyldur og börn, barnalæknastofum og íþróttaviðburðum eða menningarlegum viðburðum sem fara fram á slíkum stöðum,“ sagði í tilkynningu WHO.

Um 43 milljónir barna á leikskólaaldri þjást af offitu eða eru of þung samkvæmt tölum stofnunarinnar. Sex af hverjum tíu dauðsföllum í heiminum stafa af hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, sykursýki og krónískum lungnasjúkdómum og bendir WHO á að slæmt mataræði sé sameiginlegur þáttur í öllum þeim sjúkdómum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert