Breskir vísindamenn segja, að verslanir sænsku húsgagnaverslunarkeðjunnar IKEA virðast sérstaklega hönnuð völundarhús sem leiði til þess að viðskiptavinir missi áttanna þar inni og kaupi meira af vörum.
Breskir fjölmiðlar fjalla um helgina um rannsókn, sem Alan Penn, forstjóri Sýndarveruleikaseturs University College í Lundúnum, hefur gert á verslun IKEA í norðurhluta borgarinnar. Þar kemst Penn að þeirri niðurstöðu, að góður árangur IKEA stafi meðal annars af því, að IKEA-verslanir séu hannaðar eins og völundarhús. Gul lína sé dregin á gólfið sem viðskiptavinir fylgi, nauðugir eða viljugir, gegnum alla verslunina að útganginum.
„Þetta er svo vel gert og með svo slóttugum hætti, að það hlýtur að vera vísvitandi," hefur blaðið Scotsman eftir Penn. Hann og starfsfólk hans hafa áður gert rannsóknir á skipulagi verslana og viðbrögðum viðskiptavina.
Penn rannsakaði IKEA-verslun í Brent og segir, að í ljós hafi komið að viðskiptavinirnir verða fljótt áttavilltir þegar þeir fylgja gulu línunni. Þótt brunavarnareglugerðir kveði á um að hægt sé að stytta sér leið gegnum verslunina eru þær útgönguleiðir ekki vel sýnilegar. Með þessum hætti leiði IKEA viðskipavinina framhjá öllu því, sem til er í versluninni.
IKEA vísar því á bug að verslanirnar séu hannaðar til að rugla viðskiptavini í rýminu. Scotsman hefur eftir Carole Reddish, aðstoðarframkvæmdastjóra IKEA á Bretlandi og Írlandi, að markmiðið sé að gefa viðskiptavinum margar hugmyndir um hvernig innrétta megi öll herbergi á heimilum, þar á meðal eldhús, baðherbergi og stofu.
Sumir viðskiptavinir vilji verja löngum tíma í búðunum en aðrir fari þangað til að kaupa ákveðna hluti. Þess vegna sé hægt að stytta sér leið gegnum búðirnar.