Hópur stjarnvísindamanna telur sig hafa fundið elsta og fjarlægasta fyrirbæri sem sést hefur í alheiminum hingað til. Frá þessu er greint á Stjörnufræðivefnum.
Þar kemur einnig fram að fyrirbærið, sem sé einstaklega dauft, og nefnist UDFj-39546284, er lítil en þétt vetrarbraut blárra stjarna sem birtist okkur eins og hún leit út aðeins 480 milljónum ára eftir Miklahvell eða þegar aldur alheimsins var aðeins 4% af því sem hann er nú.
Ljósið frá þessu fyrirbæri hafði ferðast um víðáttur alheimsins í 13,2 milljarða ára þegar það barst loks Hubblessjónaukanum.
Verði uppgötvunin staðfest er hér um að ræða enn fjarlægari vetrarbraut en þá sem hingað til hefur mælst fjarlægust.
Stjörnufræðivefurinn