Android stýrikerfi Google hefur skákað farsímarisanum Nokia og Symbian stýrikerfi hans úr efsta sæti stýrikerfa snjallsíma. Android er nú í fararbroddi stýrikerfa snjallsíma, að sögn markaðsrannsóknafélagsins Canalys.
Umskiptin urðu á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Þá voru afhentar frá verksmiðjum 32,9 milljónir farsíma með Android stýrikerfi en 31 milljón síma með Symbyan stýrikerfi, að sögn Canalys. Markaðshlutdeild Google á snjallsímamarkaði stökk því úr 8,7% árið 2009 í 32,5%. Markaðshlutdeild Nokia skrapp saman úr 44% í 30,6% á sama tímabili, miðað við afhenta síma.
Nokia hélt enn stöðu sinni sem helsti seljandi snjallsíma á smásölumarkaði og var með 28% markaðshlutdeild, að sögn Canalys. Undanfarin tvö ár hafa snjallsímar á borð við iPhone frá Apple, Blackberry frá RIM og símar sem nota Android stýrikerfið, líkt og ýmsar gerðir frá Samsung og HTC, sótt að yfirburðastöðu Nokia.
Sérfræðingar telja að slagurinn um snjallsímakaupendur verði enn harðari á þessu ári. Markaðurinn muni kalla eftir enn meiri tækniþróun í símum á borð við tvíkjarna örgjörva og þrívíddar skjái. Einnig svonefndum NFC (Near Field Communication) greiðslumiðlunarbúnaði.