Fyrstu niðurstöður rannsókna í Finnlandi virðast benda til þess að svínaflensubóluefnið Pandemrix auki líkur á að ungmenni á aldrinum 4-19 ára fái svonefnda drómasýki. Benda rannsóknirnar til þess að nífalt meiri líkur séu á að bólusett ungmenni fái svefnsýki en þau sem ekki hafi verið bólusett.
Fjallað er um þessar niðurstöður finnsku lýðheilsustofnunarinnar á vef Hufvudstadsbladet í Finnlandi. Fram kemur þar, að vinnuhópur, sem fjallaði um málið, telur líklegt að notkun Pandemrix eigi þátt í auknum fjölda drómasýkitilfella í Finnlandi á síðustu misserum. Aðrir samverkandi þættir þurfi einnig að vera til staðar.
Rannsókn á hugsanlegum tengslum bóluefnisins og drómasýki mun halda áfram en von er á lokaskýrslu starfshópsins í ágúst.
Á árunum 2009–2010 greindust 60 börn og ungmenni með drómasýki í Finnlandi. Um er að ræða afar sjaldgæfan taugasjúkdóm sem lýsir sér sem óeðlilega mikil og skyndileg dagsyfja samfara miklum slappleika. Nokkur tilfelli hafa greinst hér á landi frá því á síðasta ári.