Tólf ríki hafa tilkynnt til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, um tilfelli af drómasýki sem hugsanlega tengist bólusetningu við svínaflensu. Stofnunin segir, að þetta kalli á frekari rannsóknir.
Í tilkynningu frá WHO segir, að svefntruflanir á borð við drómasýki, einkum í ungmennum, hafi ekki áður verið tengdar við bólusetningar. Segir stofnunin, að slíkir sjúkdómar séu algengari í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi en í öðrum löndum.
Talsmaður WHO segir, að hins vegar sé ekki talin ástæða til að hætta að mæla með því að fólk láti bólusetja sig gegn svínaflensu, þar á meðal bóluefninu Pandemrix sem einkum hefur verið tengt við drómasýki, vegna þess að áhættan sé hlutfallslega lítil miðað við þann hag sem fólk hefur af bólusetningunni.