Næsta útgáfa af iPad verður þynnri, léttari og öflugari, segir bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal. Heimildarmenn dagblaðsins eru sagðir þekkja vel til mála.
iPad 2 mun innihalda hraðari örgjörva, aukið vinnsluminni og bjóða upp á betra skjákort. Þá segir The Wall Street Journal að það verði myndavél framan á tækinu. Nýja útgáfan mun þó ekki bjóða upp á sömu háskerpu skjátækni og finna má í iPhone 4. „Upplausnin verður sambærileg þeirri sem var í fyrstu útgáfu af iPad,“ segir í blaðinu.
Fátt kemur á óvart í grein Wall Street Journal. Sú þróun sem lýst er á iPad vörunni er fullkomlega sambærileg við þróun annarra vara frá Apple upp á síðkastið.
Ýmsar sögusagnir hafa verið á kreiki nýlega um iPad 2. Tímarit frá Taiwan greindi frá því fyrir stuttu að Apple myndi bjóða upp á þrjár mismunandi útgáfur af iPad 2. Á japanskri bloggsíðu stóð að nýja útgáfan myndi hafa hátalara. Í grein Wall Street Journal voru þessar sögusagnir ekki staðfestar.