Kanadískt safn hóf í dag rannsókn á dularfullum dauða 20.000 býflugna sem drápust skyndilega í býflugnabúi safnsins. Búið var úr gleri og þar gátu gestir safnsins fylgst með iðnum býflugunum stússar við bústörfin.
„Býflugurnar 20.000 drápust allar á 48 stundum,“ sagði Amanda Fruci, talsmaður Royal Ontario Museum í Toronto í samtali við AFP fréttastofuna.
Hún sagði að orsakanna verði leitað en vitað sé fyrir víst að býflugurnar hafi ekki drepist vegna svonefnds búhruns heilkennis. Við þær aðstæður yfirgefi flugurnar búið og snúi ekki aftur. Í þessu tilviki drápust þær allar í búinu.
Við eðlilegar aðstæður eru afföll býflugnabúa um 5%. Þegar verður búhrun getur allt frá þriðjungi og upp í 90% flugnanna drepist. Eða jafnvel að þær drepist allar.
Opinberar tölur sem birtar voru í Bandaríkjunum í fyrra sýndu að býflugnabúum þar í landi hafði fækkað um 29% árið 2009. Árið 2008 fækkaði búunum um 36% og um 32% árið 2007.
Mikillar fækkunar býflugnabúa hefur einnig orðið vart í Evrópu, Japan og víðar á undanförnum árum. Býflugnadauðinn ógnar landbúnaði en víða reiða menn sig á býflugur til að frjóvga plöntur.
Býflugurnar í safninu virtust vera við bestu heilsu þar til í síðustu viku þegar þær fóru að drepast í hrönnum. Safnið hefur útilokað að flugurnar hafi drepist úr hungri en segir að mögulega hafi slæm loftræsting eða einhver sníkjudýr drepið flugurnar. Eins kunni vinnudýrin að vera of fá til að halda hita á býflugnabúinu yfir veturinn.