Nokia hefur lagt til hliðar hugbúnað sinn fyrir snjallsíma en ætlar í staðinn að nota hugbúnað frá Microsoft. Sérfræðingar telja að Apple sem framleiðir iPhone síma og framleiðendur Android síma hafi ástæðu til að huga að sér.
Microsoft vonar að samstarfið við öflugasta framleiðanda farsíma í heiminum muni hleypa Windows Phone 7 (WP7) hugbúnaðinum framar í röð stýrikerfa farsíma. Nokia hefur verið þar framarlega með Symbian hugbúnað sinn.
Lykill að velgengni Microsoft verður að fá hugbúnaðarsmiði sem þróa vinsæl forrit fyrir farsíma á sitt band. Talið er að samstarfið við finnska farsímarisann Nokia þyki mjög freistandi kostur. Nokia ræður nú yfir um 30% af farsímamarkaðinum.
Einn af stjórnendum Microsoft sagði að samstarfið við Nokia geti aukið útbreiðslu Windows Phone stýrikerfisins til mikilla muna.