Fólk sem dvelst meira í sól og þeir sem mælast með hærra D-vítamín en aðrir, gætu verið í minni hættu á að þróa með sér MS (multiple sclerosis) sjúkdóminn.
Áströlsk rannsókn sýnir að fólk sem býr nær miðbaugi er ekki eins líklegt til að veikjast af MS sjúkdóminum og þeir sem búa fjær. Munurinn gæti skýrst af meiri sól og D-vítamíni.
Í grein sem birtist í „Neurology“ segir Robyn Lucas, rannsakandi við The Australian National University, frá rannsókn sem hann og samstarfsmenn hans unnu á árunum 2003-2006, á 216 einstaklingum sem voru nýfarnir að sýna einkenni MS.
Í samanburðarhópi voru 400 manns frá sömu svæðum í Ástralíu sem svipaði til hinna en sýndu engin merki þess að þjást af sjúkdóminum.
Viðfangsefnin voru spurð hversu miklum tíma þau höfðu eytt í sólinni og hvar þau hefði búið á mismunandi tímabilum. Þá voru áhrif sólar á húð þeirra og D-vítamínbúskapur einnig skoðuð.
Að meðaltali höfðu þeir sem voru með MS eytt minni tíma úti í sólinni yfir ævina, með tilliti til þess í hvaða fjarlægð frá miðbaug þeir höfðu búið.
Þá voru þeir einnig líklegri til að hafa hlotið húðskaða af völdum sólar og mældust með 5-10% minna D-vítamín í líkamanum en fólkið í samanburðarhópnum.
Gagnrýnendur telja ekki hægt að sýna með þessu að sólarljós og D-vítamín hafi í sameiningu áhrif á hvort fólk veikist af MS sjúkdómnum eða ekki.
Við Harvard háskóla sé t.d. nú verið að rannsaka tengsl D-vítamíns og MS sjúkdómsins eingöngu.
Og þar sem tengsl séu á milli of mikillar viðveru í sól og húðkrabbameins, sé ekki endilega gott að vera mikið úti í sól. Þá sé heldur ekki hægt að mæla með því að fólk taki inn mikið D-vítamín.
Lucas segir hins vegar megin skilaboð rannsóknar sinnar þau að dálítil, reglubundin viðvera í sól sé líklega góð til að viðhalda D-vítamínbúskap líkamans, og af öðrum heilsufarslegum ástæðum.