Sony Ericsson hefur svipt hulunni af nýjum snjallsíma sem er einnig PlayStation leikjatölva, en hægt verður að spila þrívíddarleiki í tækinu.
Síminn, sem nefnist Xperia PLAY, er með fimm megapixla myndavél og með fjögurra tommu snertiskjá. Hann keyrir á nýjasta Android stýrikerfinu, sem nefnist Gingerbread. Síminn var frumsýndur í gær á farsímaráðstefnu sem fram fer í Barcelona á Spáni.
Inni í símanum eru hefðbundin PlayStation stjórntæki, sem koma í ljós sé skjárinn færður til hliðar.
Hægt verður að spila leiki á borð við Need for Speed, Sims 3 og FIFA í símanum.
Síminn verður settur í sölu í apríl nk. Talið er að síminn verði verðlagður á um um 600 evrur, sem eru tæpar 100.000 kr.