Engar vísbendingar eru um að e-pillur leiði til heilaskemmda og hættur lyfsins hafa verið stórlega ýktar. Þetta er niðurstaða nýrrar og viðamikillar rannsóknar vísindamanna á áhrifum eiturlyfsins. Haldið hefur verið fram að það setji af stað heilaskemmdir, leiði til minnismissis og langvarandi persónuleikabreytinga.
Rannsóknin var gerð af læknum við læknadeild Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og voru niðurstöðurnar birtar í tímaritinu Addiction í síðustu viku. Hún er ein sú stærsta sem gerð hefur verið á þessu sviði og segja vísindamennirnir sem gerðu hana að of víðtækar ályktanir hafi verið dregnar af takmörkuðum upplýsingum í fyrri rannsóknum. Neikvæð áhrif lyfsins hafi verið stórlega ýkt.
Sérfræðingar sem hafa haldið því fram að e-pillur séu tiltölulega öruggar hafa fagnað þessum niðurstöðum. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.
„Ég hef alltaf haldið því fram að þegar almennilegar rannsóknir væru gerðar þá myndum við komast að því að e-pillur valda ekki heilaskemmdum,“ sagði prófessor David Nutt sem var rekinn sem formaður ráðs gegn fíkniefnamisnotkun af breska innanríkisráðherranum Alan Johnson fyrir að lýsa því yfir opinberlega að tóbak og áfengi væri skaðlegra en e-pillur.
E-pillan öðlaðist vinsældir á 9. áratugnum þegar það var tengt reifi og danstónlist. Áhrif þeirra eru meðal annars ofsagleði, nándartilfinning við aðra og minnkandi kvíði og þunglyndi. Yfir 12 milljónir manna hafa tekið töflurnar í Bandaríkjunum einum.