Umskurn gegn HIV

Konungur Svasílands, Mswati III.
Konungur Svasílands, Mswati III. AP

Stjórnvöld í Svasílandi hrintu í dag af stað átaki til þess að fá karlmenn til að láta umskera sig til þess að reyna að berjast gegn útbreiðslu HIV-veirunnar. Hvergi í heiminum eru fleiri smitaðir af veirunni en í þessu litla Afríkulandi.

Ekki er hefð fyrir umskurn karla í Svasílandi en rannsóknir hafa sýnt fram á að það gæti heft útbreiðslu sjúkdómsins um helming. Takmark átaksins er að umskera 80% karlmanna innan árs en það er þróunaraðstoðarstofnun Bandaríkjanna sem fjármagnar það.

Beinist það sérstaklega að karlmönnum á aldrinum 15 til 49 ára og á að ná til alls landsins fyrir apríl. Í tilefni upphafs átaksins voru fjórar nýjar sjúkrastofur til umskurnar opnaðar í dag.

Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna er tíðni HIV-smita hæst í Svasílandi en árið 2009 voru 25,9% af íbúum landsins smitaðir af veirunni. Íbúafjöldi Svasílands er 1,2 milljónir.

Á milli áranna 2000 og 2009 hröpuðu meðallífslíkur í landinu úr 61 ári niður í 32 ár vegna dauðsfalla vegna alnæmi samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Svasíland er konungsríki en konungur landsins, Mswati III, stundar fjölkvæni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert