Trausti Jónsson veðurfræðingur segir að tölur um hita við Vestur-Grænland árið 2010 séu alveg með ólíkindum, en meðalhiti í Nuuk á síðasta ári hafi verið 2,6 stig, sem er um 4,2 stigum ofan meðallagsins 1961-1990 og 3,7 stigum ofan meðallagsins 1931-1960.
Trausti segir frá þessu á vef sínum, en tölurnar eru fengnar frá dönsku veðurstofunni. Í Narsarsuaq var meðalhiti í fyrra 5,4 stig og er það 4,4 stigum ofan meðallagsins 1961-1990 og 4,0 stigum ofan meðallagsins 1931-1960. „Þetta eru auðvitað dæmalausar tölur á þessum slóðum,“ segir Trausti á bloggsíðu sinni.