Eiga ekki að óttast opinn geimferðamarkað

Geimfararnir Alvin Drew og Steve Bowen að störfum við Alþjóðlegu …
Geimfararnir Alvin Drew og Steve Bowen að störfum við Alþjóðlegu geimsstöðina. Reuters

Yfirmaður NASA, Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, sagðist á fundi með þingmönnum í Washington í dag vera sannfærður um að á frjálsum markaði yrðu hönnuð ný geimför sem flytja muni fólk á sporbaug um jörðu, eftir að núverandi geimferjum Bandaríkjanna verður lagt.

Charles Bolden yfirmaður Nasa var kallaður fyrir þingmannanefnd til að ræða fjárhagsáætlun Barack Obama fyrir árið 2012, þar sem 18,7 milljarðar Bandaríkjadala eru eyrnamerktir NASA. Bolden var þar spurður í þaula um kostnað, hagkvæmni og öryggi og hversu langan tíma það muni taka að hanna ný geimför sem geti annast samgöngur um Alþjóðlegu geimstöðina (ISS).

„Við verðum að þróa áfram getuna til að komast á sporbraut um jörðu," sagði hann. „Bandaríska þjóðin má ekki vera hrædd við landkönnun. Við þurfum að hætta að óttast að taka áhættu." Á síðasta ári varð einkafyrirtækið SpaceX það fyrsta til að senda mannlaust geimfar á sporbraut og til baka, sem Bolden sagði „æðislega" þróun. SpaceX vinnur nú að því að senda ómannað vöruflutningaskip til ISS síðar á þessu ári.

Bolden sagði að NASA héldi sínu striki um að þróa nýja ferðamöguleika í geiminn fyrir árið 2015-2016. Hann sagði hinsvegar að stofnunin væri háð einkageiranum. Þaðan hafi hann fengið loforð þess efnis að náist samningar muni nýtt mannað geimfar vera sent innan þriggja ára.

Geimferðaráætlun Bandaríkjanna sem náði til 30 ára rennur brátt sitt skeið og lýkur með tveimur mönnuðum geimferðum til ISS, í apríl og í júní. Eftir það verða bandarískir geimfarar háðir Rússum um aðgengi að ISS, þar til einkageirinn tekur við. Bolden sagðist sannfærður um að framtíð mannkynsins í geimnum væri björt.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert