Ný finnsk rannsókn bendir til þess að sæðismagn hafi farið minnkandi hjá karlmönnum á síðustu árum en tíðni eistnakrabbameins hafi aukist. Vilja vísindamennirnir meina að um megi kenna breytingum í umhverfinu, m.a. sterkum iðnaðarefnum.
Hópur finnskra karlmanna á aldrinum 24-32 ára var rannsakaður þar sem áður hafði verið sýnt fram á að sæðismagn finnskra karlmanna væri með því mesta í heiminum. Niðurstaðan var sú að yngri mennirnir höfðu minna sæðismagn en þeir eldri og samanburður við karlmenn fædda 1950 leiddi í ljós að tíðni eistnakrabbameins var hærri hjá þeim sem voru fæddir í kringum 1980.
Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni sögðu að niðurstöður hennar sýndu fram á mikilvægi þess að grípa til forvarnaraðgerða. Þar sem allt benti til þess að breytingarnar mætti rekja til þátta í umhverfinu ætti að vera mögulegt að snúa þróuninni við.
„Besta kenningin sem við höfum um af hverju sæðismagn karlmanna er að minnka er sú að efni úr matvælum eða umhverfinu séu að hafa áhrif á eistu drengja í móðurkviði eða snemma á lífsleiðinni,“ sagði Jorma Toppari, prófessorinn sem leiddi rannsóknina. „Það er ljóst að fleiri rannsókna er þörf til að bera kennsl á þessi hættulegu efni svo við getum fjarlægt þau úr umhverfinu og verndað komandi kynslóðir.“