Líkur eru leiddar að því í bandarískri rannsókn sem gefin var út í dag að Bandaríkjamenn séu svefnvana því þeir taka nýjustu tækni með sér í rúmið. 95% svarenda í könnun sem National Sleep Foundation gerði sögðust spila tölvuleiki, horfa á sjónvarp, nota smartsíma eða fartölvur innan við klukkustund áður en þeir færu að sofa.
„Rannsóknin sýnir að skjáir sem gefa fá sér skæra birtu eru í mikilli notkun þessa mikilvægu síðustu klukkustund fyrir svefninn" hefur Afp eftir dr. Charles Czeisler við læknadeild Harvard háskóla. „Áreitið sem fylgir svo athygli-krefjandi tækjabúnaðir í svefnherberginu gæti átt sinn hlut í því hversu margir svarenda okkar segjast jafnframt ítrekað fá minni svefn en þeir þurfa á að halda."
Kenningin er sú, að sögn Czeisler, að ljósið sem baðar notanda tækjanna dragi úr losun hormónsins melatóníns, sem geri fólk syfjað, og örvi meðvitund fólks með þeim afleiðingum að það eigi erfiðara með svefn í kjölfarið. Niðurstöðurnar sýndu að um 43% Bandaríkjamanna á aldrinum 13 til 64 ára segjast sjaldan eða aldrei fá fullan nætursvefn í vinnuvikunni.
Eldra fólk er líklegra til að horfa á sjónvarp rétt fyrir svefninn, á meðan yngra fólk er líklegra til að halla sér að tölvum, smartsímum eða tölvuleikjum, samkvæmt rannsókninni. Á síðustu 50 árum hafi þróunin orðið sú að sjónvarpsáhorf sé orðið nær óslitið klukkustundirnar fyrir svefninn og séu önnur tækni, s.s. fartölvur, farsímar o.fl. að ná sama hlutverki. Vísindamenn telja að sjónvarpsáhorf sé fremur hlutlaust áreiti en síðarnefndu tækin hafi meiri örvandi áhrif og aukin notkun þeirra á fram á kvöld kunni að hafa mikil og alvarleg áhrif á líkamlega heilsu notenda.