Fréttaskýring: Apple að hleypa Íslandi aftur inn úr kuldanum

Steve Jobs, forstjóri Apple, kynnir iPad 2.
Steve Jobs, forstjóri Apple, kynnir iPad 2. Reuters

Athygli vakti fyrr í mánuðinum, þegar Steve Jobs, forstjóri Apple, kynnti nýja iPad-spjaldtölvu, að á lista yfir „önnur lönd“ sem munu fá tölvuna til sölu hinn 25. mars mátti sjá nafn Íslands.

„Þetta verður í fyrsta sinn frá hruni sem við fáum vöru sem þessa beint frá Apple og við höfum gert mjög hagstæða samninga við þá,“ segir Bjarni Ákason, forstjóri Apple á Íslandi. „Við munum því geta boðið iPad 2 á mjög samkeppnishæfu verði. Við stefnum að því að bjóða ódýrustu útgáfuna á um 79.000 krónur og ætlum að reyna að bjóða ódýrustu 3G-útgáfuna af iPad 2 á undir hundrað þúsund kallinum.“

Íslenskir Apple-unnendur hafa undanfarin ár þurft að þreyja þolinmóðir í grimmu éli af örvum ógæfunnar, ef ekki er of djúpt í árinni tekið.

Íslensk iTunes-verslun

Þá skiptir ekki minna máli að ekki hefur verið hægt að eiga viðskipti í gegnum iTunes-verslun Apple hér á landi, að minnsta kosti ef öllum reglum er fylgt. Hægt er að komast í kringum reglurnar og opna bandarískan reikning á iTunes héðan frá Íslandi, en eðlilega hafa Íslendingar frekar viljað geta stundað viðskipti óhindrað og án þess að fara á svig við reglur.

Útlit er hins vegar fyrir að þetta muni breytast. „Við höfum verið í viðræðum við Apple í Bandaríkjunum um opnun iTunes-verslunar fyrir Ísland, að minnsta kosti þann hluta hennar sem selur forrit og svokallað iTunes U, þar sem hægt er að nálgast endurgjaldslaust gríðarlegt magn kennsluefnis á nánast hvaða sviði sem er,“ segir Bjarni.

Hann segir að til að byrja með verði iTunes á Íslandi líklega takmörkuð við þessa tvo þætti og svo þá hluti sem er almennt hægt að nálgast hvaðan sem er í heiminum endurgjaldslaust, eins og hlaðvarp (e. podcast). „Íslendingar munu því geta nálgast mjög mikið af efni í gegnum þjónustuna, þótt tónlist og kvikmyndaefni verði undanskilið.“

Hann segir ástæðuna aðallega liggja hjá Apple í Bandaríkjunum fyrir því hvers vegna íslenskri iTunes-verslun hafi ekki fyrir löngu verið komið á koppinn.

„Það fylgir því alltaf ákveðinn kostnaður, bæði í tíma starfsfólks og í peningum, að setja upp nýja iTunes-verslun og í þessum efnum vinnur smæð Íslands gegn okkur. Í mjög einföldu máli má segja að það kosti Apple jafnmikið að setja upp iTunes-verslun í Bretlandi og á Íslandi, en breski markaðurinn er náttúrlega margfalt stærri en okkar. Þess vegna borgar það sig einfaldlega fyrir Apple að einbeita sér að stærri mörkuðum. Við vonum hins vegar að þetta sé að fara að breytast.“

Hvar ber að greiða skattinn?

Hvað tónlistarsölu í gegnum iTunes varðar þarf væntanlega að leysa úr sambærilegum álitamálum hvað varðar höfundarlaun og stefgjöld, en sú hindrun hefur ekki staðið ein í veginum fyrir opnun iTunes-verslunar á Íslandi eins og margir halda. Fari svo að tónlistarsala verði heimil í gegnum íslenska iTunes-verslun verður hins vegar að gera ráð fyrir því að sala kvikmyndaefnis fylgi ekki með. „Í Danmörku held ég örugglega að fólk geti keypt tónlist, en ekki bandarískt kvikmyndaefni, en það ræðst af bandarískum höfundar- og dreifingarréttarsamningum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert