Morgunblaðið tengt nýjustu snjallsímum

QR-kóðar hafa undanfarið rutt sér til rúms með aukinni útbreiðslu æ fullkomnari snjallsíma. Íslendingar eru engir eftirbátar annarra í nýjungagirni á þessu sviði og hefur til að mynda víða mátt sjá þessum kóðum bregða fyrir í auglýsingum.

Á síðum Morgunblaðsins í dag má víða sjá QR-kóða, tengda og ótengda efni blaðsins. Með snjallsíma búnum þar til gerðum hugbúnaði er hægt að skanna þessa kóða, en við það býðst notanda til dæmis að lesa nánar um umfjöllunarefni fréttar, horfa á myndskeið henni tengt, fylgjast með framvindu málsins á mbl.is eða taka þátt í leikjum á vegum Símans.

Með notkun þessarar tækni má því segja að verið sé að tvinna saman rótgróna tækni og nýja, en samspilið auðveldar og flýtir fyrir aðgengi lesandans að frekari fróðleik, fréttum og afþreyingu. „Það er okkar trú að með þessari tilraun takist okkur að auðga upplifun lesenda Morgunblaðsins með því að nýta tækni sem margir hafa kannski gengið með í vasanum án þess að vita af því,“ segir Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins.

Hvað eru QR-kóðar?

Segja má að QR-kóði („QR“ er stytting á „Quick Response“) sé afkomandi hefðbundinna strikamerkja. Munurinn liggur fyrst og fremst í því magni gagna sem kóðinn inniheldur. QR-kóðar eru upprunnir í Japan, en það var bifreiðaframleiðandinn Toyota sem hóf notkun þeirra til þess að fylgjast með varahlutaframleiðslu. Þeir hafa síðan breiðst út og er notkun þeirra nú orðin mjög almenn, hvort heldur er fyrir farsíma, leikjatölvur eða tölvur búnar myndavél. Kóðana hefur meðal annars mátt finna á plötuumslögum, á ferðamannastöðum og sem hluta af fatnaði. Þess má til dæmis geta að á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í fyrra var sá háttur hafður á að QR-kóðum var komið fyrir á tónleikastöðum. Tónleikagestir gátu þá „skannað“ viðkomandi kóða og fengið dagskrána senda beint í símann.

Flestar gerðir snjallsíma bjóða núorðið upp á hugbúnað til þess að lesa kóðana. Fjöldi forrita er til fyrir síma sem keyra Android stýrikerfið, eins fyrir iPhone, Nokia og Blackberry síma, sem allir eru útbreiddir hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert