Íslenski veðurspárvefurinn Belgingur.is hefur síðan á sunnudag unnið nákvæmar veðurspár fyrir svæðið kringum kjarnorkuverið í Fukushima í Japan. Spárnar eru m.a. aðgengilegar á nýrri japanskri útgáfu af vefnum. Verkefnið er unnið í samstafi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna, UNOSAT og OCHA, og hjálparsamtökin NetHope.
Belgingur hefur jafnframt gegnum sömu aðila verið að vinna spár fyrir átakasvæðin í Líbíu, eða kringum borgina Trípólí. Á undanförnum árum hefur samstarf Belgings og innlendra björgunar- og leitaraðila aukist jafnt og þétt, og hefur sú samvinna m.a. leitt til samstarfs við UNOSAT og NetHope.
Að sögn Ólafs Rögnvaldssonar, framkvæmdastjóra Belgings, eru þessar nákvæmu veðurspár hluti af kerfi sem fyrirtækið hefur verið að þróa á seinni árum, og nefnist SARWeather. SAR stendur fyrir Search and Rescue, eða Leit og Björgun. Stefnt er að því að SARWeather verði hluti af viðbragðskerfi Sameinuðu þjóðanna síðar á þessu ári. SARWeather veðurspárnar eru reiknaðar á tölvuskýi GreenQloud, en með því móti er nægjanlegt reikniafl tryggt.
Einnig í samstarfi við Google
Auk þess að reikna og birta veðurspár fyrir svæðið kringum Fukushima á Belgingur.is vefnum, þá eru starfsmenn Belgins í samstarfi við sérfræðinga Google við frekari eftirvinnslu veðurspánna. Markmiðið er að hægt verði að birta veðurspárnar í hugbúnaði Google (þ.e. Google Maps og Google Earth) ásamt öðrum hnitsettum gögnum, en slíkt myndi auðvelda skipulagningu og áætlanagerð björgunaraðila.
Hjá Belgingi starfa fimm manns, en auk Ólafs eru það veðurfræðingarnir Hálfdán Ágústsson og Einar Magnús Einarsson og til viðbótar stjarneðlisfræðingur og tölvunarfræðingur. Fyrirtækið verður meðal þátttakenda á UT-messunni í byggingu HR í Öskjuhlíð nk laugardag, þar sem allt hið nýjasta í íslenskri upplýsingatækni verður kynnt.
Fyrir áhugasama þá má nálgast japönsku útgáfuna á Belgingi.is hér.