Ríkisstjórnin samþykkti í dag frumvarp Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um landslénið .is. Meginmarkmið frumvarpsins til laga um íslensk höfuðlén er að tryggja bæði gæði og framþróun á sviði lénaumsýslu með því að setja lagaramma um lénaskráningar á Íslandi sem tryggir öryggi, skilvirkni og gagnsæi varðandi umsýslu með íslenskum höfuðlénum.
Markmið þess eru aukinheldur að tryggja að um skráningu léna gildi skýrar reglur þar sem gætt er að hagsmunum almennings og jafnræði aðila um aðgang sé tryggt. Auk þess má segja að tilgangur laga um landslénið .IS sé að vernda vörumerkið Ísland, enda hafa íslensk höfuðlén beina skírskotun til Íslands og ímyndar þess, bæði útávið og innávið í samfélagslegu samhengi. Með því að stuðla meðal annars að því að lén undir íslenskum höfuðlénum séu vistuð með öruggum hætti og umsýsla þeirra örugg og háð eftirliti er jafnframt stuðlað að auknu trausti í notkun íslenska hluta internetsins og því að .IS verði gæðamerki.
Engin sérlög hafa gilt hingað til á þessu sviði hér á landi og af íslenskri löggjöf verður ekki ráðið að umsjón með landsléninu .IS lúti öðrum reglum eða eftirliti en almennur atvinnurekstur. Frumvarpið kveður á um umráða- og ráðstöfunarrétt íslenska ríkisins á íslenskum höfuðlénum og fastsetur ramma um stjórnun íslenskra höfuðléna, sem hafa verið eða verða úthlutað til Íslands.