Finna fimm Alzheimergen til viðbótar

Heilbrigt heilahvel (t.h.) og heilahvel úr alzheimersjúklingi.
Heilbrigt heilahvel (t.h.) og heilahvel úr alzheimersjúklingi. reuters

Fundist hafa fimm arfberar sem aukið geta hættuna á hrörnunarsjúkdómnum Alzheimer. Frá þessu segir í grein um fjölþjóðlega vísindarannsókn í nýjasta hefti tímaritsins Nature Genetics en meðal höfunda eru vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar. 

Með þessu eru gen sem tengjast Alzheimer-sjúkdómnum orðin 10 en í greininni segir að nýju genin fimm hafi þrenns konar áhrif á starfsemi líkamans. Hugsanlega mætti beina meðhöndlun að þeim en vísindamennirnir segja það ekki unnt í bráð, heldur í fyrsta lagi eftir ein 15 ár.

Í greininni í Nature Genetics segir að ef uppræta mætti áhrif allra genanna 10 myndu líkurnar á því að verða sjúkdómnum að bráð minnka um 60%. Talið er að hann sé að 80% leyti arfborinn.

Fyrsta genið sem tengdist Alzheimer uppgötvaðist fyrir rúmum 17 árum en síðan leið til ársins 2009 að fleiri gen voru uppgötvuð.

Í ofangreindri rannsókn tóku þátt fjöldi vísindastofnana um heim allan. Þar á meðal Íslensk erfðagreining í Reykjavík og læknadeild Háskóla Íslands.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert