Android í örum vexti

Android stýrikerfið er frá Google og notað af mörgum framleiðendum …
Android stýrikerfið er frá Google og notað af mörgum framleiðendum snjallsíma. Reuters

Nærri helmingur snjallsíma verður með Android stýrikerfi frá Google í lok næsta árs, samkvæmt spá tæknirannsóknafyrirtækisins Gartner sem birt var í dag.

Áætlað er að um 468 milljónir snjallsíma seljist í heiminum á þessu ári. Það er um 57,7% meiri sala en var í fyrra. Þá er því spáð að á næsta ári seljist 630 milljónir snjallsíma og 1,1 milljarður árið 2015, að mati Gartner.

Fyrirtækið segir að Android stýrikerfið, sem Google hefur m.a. leyft símaframleiðendum á borð við Samsung, HTC og Motorola nota án endurgjalds, verði vinsælasta stýrikerfi snjallsíma í lok þessa árs. Þá verði markaðshlutdeild þess 38,5%. Hún muni vaxa í 49,2% í lok næsta árs og verða 48,15% árið 2015.

Gartner spáir því að stýrikerfi Apple, sem notað er í iPhone símum, muni njóta 19,4% markaðshlutdeildar í snjallsímum í lok þessa árs. Þar næst komi Symbian stýrikerfið frá Nokia með 19,2% og stýrikerfi Blackberry með 13,4%.

Því er spáð að markaðshlutdeild iPhone verði nokkuð stöðug á næsta ári og markaðshlutdeild Apple síma 18,9% og 17,2% árið 2015. Því er spáð að hlutdeild Symbian stýrikerfisins minnki í 5,2% á næsta ári og að hún verði nær horfin árið 2015 þegar finnski farsímarisinn Nokia verður búinn að taka upp Microsoft stýrikerfi.

Gartner telur að aukin útbreiðsla Android muni leiða til lækkunar á verði snjallsíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert