Námuverkamaður í Kentucky-ríki í Bandaríkjunum fann nýverið þrjú hundruð milljón ára gamlan steingerving úr kjálkabeini hákarls við námugröft.
Námuverkamaðurinn heitir Jay Wright og er tuttugu og fimm ára gamall. Wright fann steingervinginn á um 213 metra dýpi.
Talið er að steingervingurinn sé kjálkabein úr svokölluðum Edestus-hákarli, sem synti í hafinu sem var eitt sinn þar sem landsvæði Kentucky er í dag. Talið er að Edestus-hákarl hafi verið svipaður og hvíthákarl að stærð, en tegundin dó út fyrir um þrjú hundruð milljón árum síðan.
Wright sagði í viðtali að fyrstu viðbrögð hans hafi verið: „Je minn, hvaða hlutur er nú þetta?“
Fundurinn þykir nokkuð merkilegur og er sagt að svo stórir steingervingar finnist afar sjaldan. Steingervingurinn er nú til sýnis í háskólanum í Kentucky.