Maríó, Hoopa Troopa, Freckles, Casper, Good Lookin' og Cuddlebug eru meðal þeirra Rhesus-apa sem taka nú þátt í umdeildri rannsókn sem gengur út á það að þeir eru látnir sitja í búrum og borða óholla fæðu.
Rannsóknin er framkvæmd af tilraunastofu í Portlando í Oregon-ríki, sem hefur lengi fengist við athuganir á prímötum. Vonast er til þess að rannsóknin muni varpa ljósi á það hvað veldur offitu, sjúkdómi sem um sjötíu milljónir Bandaríkjamanna kljást við.
Búrin sem aparnir dvelja í eru lítil, til að koma í veg fyrir hreyfingu. Aparnir eru látnir borða fituríkan mat, sykrað snarl og drekka sykraða drykki.
Dr. Kevin Grove,, sem leiðir rannsóknina, segir að markmiðið sé að herma eftir lífsstíl og matarvenjum offitusjúklinga. „Við erum að reyna apa eftir kyrrsetulífsstílnum,“ sagði Grove. „Þar sem einstaklingar sitja allan daginn og borða, sitja við skrifborðið í vinnunni snarlandi allan daginn... þeir [aparnir] munu sitja hér og snarla, rétt eins og manneskjur myndu gera.“
Aparnir líta ekki út eins og offitusjúklingar. Einn er þó talsvert þyngri en venjulegir apar og ber það með sér. Apinn Shiva er um tuttugu kíló, en það er hliðstætt því ef 178 cm hár maður myndi vega 114 kíló. Shiva dregur vömbina eftir gólfi búrsins og getur ekki leynt gleði sinni þegar hann fær að borða. Shiva er á góðri leið með að verða sykursjúkur, en nokkrir apanna eru þegar orðnir sykursjúkir og þurfa að fá insúlínsprautur daglega.