Fréttaskýring: Snjallsímarnir taka yfir

Snjallsíminn iPhone frá Apple.
Snjallsíminn iPhone frá Apple. Reuters

Endurnýjun handtækja á farsímamarkaði hefur nú náð meiri hraða en nokkru sinni, og með harðnandi samkeppni er útlit fyrir að sú þróun haldi áfram í fyrirsjáanlegri framtíð. Sífellt fleiri kjósa nú að fá sér svokallaða snjallsíma, sem geta í raun gert allt það sem maður býst við af öflugri tölvu – en eru einnig nýtanlegir til símtala.

Íslendingar gefa að vonum ekkert eftir í nýjungagirninni, en áætlað er að hátt í 100 þúsund símar séu nú seldir hér á landi árlega. Hlutdeild snjallsíma í þeim fjölda er á bilinu 20-30% eins og staðan er nú, en vex stöðugt. Á því eru ýmsar skýringar.

Örar tækniframfarir

Algengt er að fólk nú til dags eigi allt í senn farsíma, myndavél, tónhlöðu og aðrar smágræjur sem notaðar eru í ólíkum tilgangi og við mismunandi kringumstæður. Með snjallsímum eru þessi tæki öll sameinuð í eitt. Þvert á það sem ætla mætti kostar góður snjallsími í mörgum tilfellum minna en nokkurt ofangreindra tækja kostar eitt og sér. Til viðbótar við þá virkni sem til staðar er í dag vinna handtækjaframleiðendur nú að innleiðingu skammdrægs þráðlauss eiginleika sem gerir notendum kleift að nota símann til þess að greiða ýmislegt smálegt eða tengja fyrirhafnarlítið við önnur tæki. Á móti má velta fyrir sér afleiðingum þess að týna tæki sem gegnir jafn fjölbreytilegu hlutverki, en það verður að vera hausverkur eigandans.

Hraðar verðlækkanir

Fyrsta iPhone-símans varð vart á dreifikerfi Símans í júní árið 2007. Apple tók snemma forystuna á snjallsímamarkaði, og aðrir framleiðendur í þeirri stöðu hófu eltingaleikinn. Í september 2008 leit fyrsta útgáfu Android-stýrikerfisins dagsins ljós, en leitarrisinn Google hefur umsjón með þróun þess. Því var ætlað að keppa við stýrikerfi Apple, iOS, og hefur um margt svipaða eiginleika, einkum hvað útlit og viðmót varðar. Útbreiðsla síma sem knúnir eru af Android hefur verið ævintýralega hröð. Í apríl á síðasta ári sást fyrsti Android-síminn á dreifikerfi Símans, en strax um áramót voru Android-símar orðnir jafn margir og iPhone og eru nú orðnir töluvert fleiri. Þessi hraða útbreiðsla skýrist meðal annars af því að úrval Android-síma er mun meira, og verðið mjög breytilegt. IPhone-símar eru hins vegar aðeins framleiddir af Apple, og kosta með því allra mesta sem gerist og því ekki á allra færi að kaupa slíkan.

Óútreiknanlegir möguleikar

En hvaða möguleika býður þessi tæknivæðing notandanum upp á? Nærtækasta dæmið er ný form samskipta, svo sem í gegnum Facebook og Twitter, og aukið aðgengi að upplýsingum í gegnum hefðbundna miðla, sem margir hverjir tileinka sér reyndar hin nýju form að auki. Þannig segja allir stærstu fjölmiðlar heims fréttir á Twitter, sem er líklega sá vettvangur þar sem fyrst er hægt að nálgast fréttir af atburðum líðandi stundar.

En það eru ekki bara hinir hefðbundnu fjölmiðlar sem sitja að tækninni, því hún hefur haft það í för með sér að leikurinn hefur jafnast, almennir netnotendur geta tekið að sér hlutverk fréttaveitunnar. Þetta hefur sést einna gleggst í uppreisnum í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum síðustu mánuðina. Ör miðlun upplýsinga á samfélagsmiðlum, einkum í gegnum farsíma, hefur gert yfirvöldum það erfitt að hafa hemil á þegnum sínum. Stjórn Mubaraks sá til dæmis ekki annað í stöðunni en að loka fyrir internetaðgang um 90% Egypta. Það dugði þó ekki til þess að varna falli hans. Nú berast þær fregnir frá Sýrlandi að gríðarleg mótmæli séu skipulögð í gegnum Facebook. Frekari útbreiðsla snjallsíma mun flýta þessari þróun og færa upplýsinga- og fréttamiðlun úr sínum hefðbundna farvegi. Í því samhengi er áhugavert að líta til þeirrar tölfræði að af jarðarbúum eru um 27% tengd netinu. Á hinn bóginn eru um 80% með farsíma. Gert er ráð fyrir því að eftir tvö til þrjú ár verði helmingur allra farsíma snjallsímar.

Skírði dóttur sína Facebook

Egyptinn Gamal Ibrahim var svo ánægður með þátt samskiptamiðla í uppreisninni í Egyptalandi, sem á endanum varð til þess að Hosni Mubarak hrökklaðist frá völdum, að hann ákvað að skíra dóttur sína „Facebook,“ eftir samskiptavefnum vinsæla.

Í samtali við egypska dagblaðið Al-Ahram sagðist hann hafa viljað gera þetta til að lýsa yfir ánægju sinni með 25. janúar-hreyfinguna, en uppreisnin hófst þann dag. Dóttir hans er líklega sú eina í heiminum sem ber þetta sérkennilega nafn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert