Meirihluti trúir á framhaldslíf

Málverk Michelangelos af sköpun Adams. 18% þátttakenda í könnuninni trúir …
Málverk Michelangelos af sköpun Adams. 18% þátttakenda í könnuninni trúir því að guðleg vera hafi skapað mannkynið.

Meiri­hluti, eða 51% þeirra sem tóku þátt í skoðana­könn­un Reu­ters og Ip­sos í 23 lönd­um, trú­ir því að til sé líf eft­ir þetta líf og einnig að til sé guðleg vera.  18% sögðust ekki trúa því að guðleg vera sé til og 17% sögðust ekki vera viss.

Hins veg­ar sögðust aðeins 18% trúa því að guðleg vera hafi skapað mann­kynið. 41% sagðist trúa þró­un­ar­kenn­ing­unni en 31% sagðist ekki vita hverju ætti að trúa. Alls tóku 18.829 ein­stak­ling­ar þátt í könn­un­inni.

„Þótt að svo virðist sem við lif­um í ver­ald­leg­um heimi sýn­ir þessi könn­un hve trú­in er mik­il­væg hjá mörg­um," seg­ir Bobby Duffy, fram­kvæmda­stjóri Ip­sos stofn­un­ar­inn­ar, við Reu­ters­frétta­stof­una.

Hann seg­ir einnig áhuga­vert, að svo stór hluti þeirra, sem ekki trú­ir á guðlega veru eða fram­halds­líf sé ekki viss um hvort and­leg skýr­ing sé á til­ver­unni og hvað ger­ist eft­ir dauðann. 

Hlut­fall þeirra, sem trú­ir að til séu æðri mátt­ar­völd, er hæst í Indó­nes­íu, Tyrklandi og Bras­il­íu og 24% Ind­verja, 14% Kín­verja og 10% Rússa trúa á marga guði.

En minnst er þessi trú meðal Vest­ur-Evr­ópu­búa. Þannig sögðust nærri 40% Frakka ekki trúa á guð eða æðri mátt­ar­völd og litlu færri í Svíþjóð, Belg­íu og á Bretlandi.

Hlut­fall þeirra, sem trúa að til sé fram­halds­líf en hvorki himna­ríki né hel­víti, er hæst í Mexí­kó, Rússlandi, Bras­il­íu, Indlandi, Kan­ada og Arg­entínu.  Hlut­fall þeirra, sem trúa á end­ur­holdg­un var hæst í Ung­verjalandi eða 13%.

Þá var trú­in á guðlega sköp­un sterk­ust í Suður-Afr­íku, Banda­ríkj­un­um, Indó­nes­íu, Suður-Kór­eu og Bras­il­íu.

Frétt Reu­ters­frétta­stof­unn­ar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert