Notendur fylgist með greiðslukortanotkun

Hátt í áttatíu milljónir manns nota PlayStation network.
Hátt í áttatíu milljónir manns nota PlayStation network. Reuters

Fulltrúar japanska raftækjaframleiðandans Sony biðja notendur að fylgjast vel með greiðslukortareikningum sínum til að tryggja að tölvuþrjótarnir, sem stálu aðgangsorðum og persónuupplýsingum um notendur sem notuðu PlayStation Network, noti ekki greiðslukort þeirra.

PlayStation Network og Qriocity tónlistarvefnum var lokað 20. apríl eftir að brotist var inn á netsvæðin. Samkvæmt upplýsingum frá Sony er talið að tölvuþrjótarnir hafi komist yfir notendanöfn, aðgangsorð, kennitölur og netföng notenda. Þá sé heldur ekki hægt að útiloka að tölvuþrjótarnir hafi komist yfir upplýsingar um greiðslukort þótt ekkert bendi enn til þess.

Sony hefur ráðið utanaðkomandi öryggisfyrirtæki til að rannsaka innbrotið sem fulltrúar Sony segja að hafi verið „framið í illgirni“. Unnið sé nú að endurbyggingu kerfisins sem muni tryggja betri vernd persónuupplýsinga. Þá eru notendur beðnir að hafa samband við greiðslukortafyrirtæki sín til að sjá til þess að fylgst verði vel með notkun kortanna.

Um 77 milljón manns frá 59 löndum nota PlayStation network. Hafi tölvuþrjótarnir komist yfir upplýsingar um greiðslukortin, þá má ætla að þjófnaðurinn sé einhver sá umfangsmesti sem hefur verið framinn á þessu sviði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert