Einstein hafði á réttu að standa

Fyrstu drög að gervihnettinum sem notaður var við tilraunina voru …
Fyrstu drög að gervihnettinum sem notaður var við tilraunina voru lögð árið 1959. Tilrauninni lauk á síðasta ári. Skýringarmynd/NASA

Þyngdarafl stórra fyrirbæra í alheiminum hefur áhrif á rúmið og tímann, að því er vísindamenn bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA hafa sýnt fram á. Þeir hafa því sannað tvö lykilatriði í almennri afstæðiskenningu Alberts Einstein.

„Einstein lifir af,“ sagði Francis Everitt, eðlisfræðingur við Stanford háskóla og yfirmaður rannsókna í verkefni sem kallað er Gravity Probe B (GP-B). Rannsóknin snýr að þyngdaraflinu og er eitt af langlífustu verkefnum NASA.

Undirbúningur tilraunarinnar tók meira en fjóra áratugi áður en hún hófst árið 2004. 

„Þyngdaraflið sveigir tímann og rúmið í alheimi Einsteins. Jörðin brenglar rýmið umhverfis sig lítillega með þyngdarafli sínu,“ sagði Everitt til útskýringar á kenningu Einsteins frá því fyrir nærri 100 árum, löngu áður en til var tækni til að sanna hana.

„Ímyndið ykkur jörðina eins og henni væri sökkt í hunang. Þegar jörðin snýst þá dregst hunangið umhverfis hana til og það sama gerist varðandi tímann og rúmið,“ sagði Everitt.

„GP-B staðfesti tvær af dýpstu forsögnum Einsteins um alheiminn, sem mun hafa mjög víðtækar afleiðingar fyrir rannsóknir í stjarneðlisfræði,“ sagði Everitt.

Um borð í gervihnettinum voru fjórir háþróaðir snúðvísar (gyroscope) til að mæla áhrif þyngdaraflsins.  NASA sagði að ef kenning Einsteins hefði ekki staðist hefðu snúðvísarnir stöðugt vísað í sömu átt á meðan þeir voru í geimnum. Hins vegar varð vart mælanlegs mismunar á afstöðu þeirra fyrir áhrif aðdráttarafls jarðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert