Geimferjunni Endeavour var skotið á loft í síðasta skipti frá Kennedy geimferðastofnuninni á Canaveralhöfða á Flórída í dag. Ferðinni er heitið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.
Geimskotinu var frestað um nærri þrjár vikur vegna bilana sem komu í ljós.
Gert er ráð fyrir að ferjan snúi til jarðar á ný eftir 16 daga og verði þá lagt. Ein geimferjuferð er þá eftir en Atlantis verður skotið á loft í síðasta skipti í júlí, gangi áætlanir eftir.
Tugir þúsunda manna fylgdust með geimskotinu á Canaveralhöfða, þar á meðal þingkonan Gabrielle Giffords, sem var skotin í höfuðið á framboðsfundi sl. vetur. Mark Kelly, eiginmaður hennar, er flugstjóri í ferðinni.