80% tegunda heims enn óþekkt

Blóðsuga sem nefnd hefur verið „T-rex
Blóðsuga sem nefnd hefur verið „T-rex" í höfuðið á risaeðlunni alræmdu er meðal nýrra tegunda sem uppgötvuðust árið 2010.

Stökkvandi kakkalakki, sjálflýsandi sveppur, baktería sem nærist á ryði og blóðsuga sem kölluð er „T-rex" eru meðal 10 merkilegustu nýju tegundanna sem uppgötvuðust í heiminum á síðasta ári, að sögn bandarískra vísindamanna.

Nýju tegundirnar fundust í Brasilíu, Suður-Afríku, Perú, á Filippseyjum, Madagaskar, í Vestur-Afríku, Oregon í Bandaríkjunum, Mascarene eyjum á Indlandshafi, í Mexíkóflóa og í Norður-Atlantshafi. Listinn yfir 10 merkilegustu nýju tegundirnar er tekinn saman af sérfræðingum og birtur á hverju ári af alþjóðlegu tegundarannsóknastöðinni í Arizona-háskóla.

Blóðsugan sem nefnd er eftir risaeðlunni illræmdu var fjarlægð af nefi manns í Perú. Hún er 5 cm að lengd en það voru óvenjukraftmiklir kjálkar hennar og risastórar tennur sem fengu vísindamenn til að nefna hana „Tyrannobdella rex" sem þýðir "harðstjóra blóðsugukonungur".  

Vísindamenn á Kanada og Spáni fundu bakteríuna sem nærist á ryði á hluta úr farþegaskipinu Titanic, sem sóttur var á hafsbotn þar sem skipið hefur legið síðan það sökk árið 1912. Vísindamenn telja að bakterían kunni að nýtast við náttúrulega eyðingu úreltra skipa og olíuleiðslna á hafsbotni. Í frumskógum Sao Paulo í Brasilíu fundust agnarsmáir sveppir sem reyndust glóa í myrkri og gefa frá sér skæra, gulgræna birtu. Um 70 aðrar sjálflýsandi sveppategundir hafa áður fundist.

Kakkalakkanum hoppandi þykir svipa til engisprettu. Hann uppgötvaðist í Suður-Afríku. Aðrar merkar tegundir sem uppgötvuðust á árinu voru hvæsandi krybba, óvenjulegur kaldvatnssveppur, ný  tegund antílópu, tveggja metra löng eðla og fiskur sem líkist leðurblöku. Á Madagascar uppgötvaðist könguló sem spinnur vef, sem er tvöfalt sterkari en vefur annarra köngulóa, þvert yfir allt að 25 metra breiðar ár.  

Vísindamenn telja að allar þær tegundir sem hafa uppgötvast og verið skráðar frá árinu 1758 séu aðeins um 20% þeirra plantna og dýra sem eru til á jörðu. „Það er raunhæft að áætla að enn eigi eftir að skrá, nefna og flokka um 10 milljón tegundir. Fyrr getum við ekki öðlast til fullnustu skilning á margbreytileika lífríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert