Fornleifafræðingar hafa fundið 17 pýramída og fjölmargar aðrar fornar byggingar eftir að hafa rannsakað gervihnattamyndir af Egyptalandi.
Vísindamaðurinn Sarah Parcak segir að það sé draumur allra fornleifafræðinga að fá að grafa upp pýramída.
Vísindamennirnir skoðuðu innrauðar gervihnattamyndir sem sýndu mannvirki sem voru neðanjarðar. Þeir hafa einig fundið yfir 1.000 grafhýsi og 3.000 fornar byggðir, að því er segir á vef breska útvarpsins.
Fornleifauppgröfur á vettvangi hefur einnig staðfest fund vísindamenninna, m.a. hafa tveir af pýramídunum 17 fundist.
Parcak er brautryðjandi á sviði þess að leita að fornleifum ofan úr geimnum. Hún starfar við Háskólann í Alabama í Bandaríkjunum. Hún segir að það hafi komið sér mjög á óvart hversu mikið hún og samstarfsmenn hennar hafa fundið.