Ný gögn benda til þess að Adolf Hitler, einræðisherra Þýskalands, hafi vitað af flugferð eins nánasta samstarfsmanns síns, Rudolfs Hess, til Bretlands 10. maí 1941 í miðri síðari heimsstyrjöldinni.
Flugferðin hefur lengi þótt einkennileg og aldrei í raun fengist botn í það hvers vegna Hess ákvað að leggja í hana. Talið hefur verið að hann hafi ætlað að reyna að semja frið við Breta og ennfremur að Hitler hafi alls ekki vitað af þessu ferðalagi hans.
Þýska tímaritið Der Spiegel greinir hins vegar frá því í dag að sagnfræðingar hafi fundið gögn í ríkisskjalasafni Rússlands sem bendi til þess að Hitler hafi verið fullkunnugt um flugferðina.
Um er að ræða 28 síðna handskrifaða yfirlýsingu sem Karl-Heinz Pintsch ritaði árið 1948 þegar hann sat í rússneskum fangabúðum en hann var lengi aðstoðarmaður Hess.
Samkvæmt skýrslunni tengdist flugið til Bretlands samningaviðræðum á milli ráðamanna í Berlín og London. Verkefni Hess hafi verið að reyna með öllum ráðum að koma á hernaðarbandalagi á milli Bretlands og Þýskalands gegn Rússum eða í það minnsta að tryggja hlutleysi Breta gagnvart innrás Þjóðverja í Sovétríkin sem þá stóð fyrir dyrum.
Hess var hins vegar handtekinn við komuna til Bretlands og síðar dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir stríðsglæpi að stríðinu loknu. Hann framdi sjálfsmorð í Spandau-fangelsinu í Berlín 17. ágúst 1987.