Smágerðu verurnar sem áhugamenn um geimverur fullyrða að hafi fundist í óþekktu flugfari í Roswell í Nýju-Mexíkó voru í raun börn sem höfðu sætt pyntingum af hálfu Josef Mengele, hins fræga tilraunalæknis nasista. Þessu er haldið fram í nýrri bók um Area 51, hið fræga svæði bandaríska flughersins.
En Mengele bar viðurnefnið „engill dauðans“ vegna hrottalegra tilrauna sinna.
Fjallað er lofsamlega um nýju bókina, Area 51: An uncensored history of America's top military base, eftir Annie Jacobsen á vef Los Angeles Times. Segir þar að greinilegt sé að mikil rannsóknarvinna liggi þar að baki.
Brotlendingin í Roswell árið 1947 hefur á sig blæ helgisagna í heimi áhugafólks um fljúgandi furðuhluti. Má þar nefna þessa bloggsíðu en þar segir að brotlendingin sé lykilatburður í geimverufræðum.
Jacobsen skrifar um þennan atburð og hefur eftir heimildarmönnum sínum að kýrílískt letur hafi fundist á flugfarinu og að því megi draga þá ályktun að Sovétmenn hafi smíðað það.
Jósef Stalín kemur við sögu því Jacobsen segir hann hafa gert samning við lækninn Mengele um að veita þeim síðarnefnda hæli í Rússlandi gegn því að Sovétríkin fengju „geimverurnar“, þ.e. einhvers konar vansköpuð börn.
Er það sagt um afdrif Mengele að hann hafi horfið í Rómönsku-Ameríku.
Fær þessi kenning heldur laka dóma hjá ritrýni blaðsins en hún mun byggja á framburði aldraðs starfsmanns á svæði 51, sem svo má kalla.