Óvenjulegt sólgos, sem vísindamenn hjá bandarísku geimferðastofnuninni (NASA) urðu varir við í dag, gæti valdið truflunum í samskiptum í gegnum gervihnetti fram á morgundaginn.
Talið er líklegt að sólgosið muni leiða af sér rafsegulvirkni sem gæti haft áhrif á samskiptatækni á Jörðinni.
„Þetta gos var dálítið dramatískt,“ sagði Bill Murtagh, einn vísindamannanna, um sólgosið. „Við sáum upphaflega sólgosið en sprengingin sem fylgdi í kjölfarið var magnþrungin að sjá.“
Sólarrannsóknarstöð NASA birti myndir af gosinu og sagði það hafa verið mjög tilkomumikið að sjá. Hins vegar hefði það ekki beinst í átt til Jarðar og því yrðu afleiðingarnar hér smávægilegar.
Magnað myndband af sólgosinu má nálgast hér.