„Þetta er án efa einn stærsti samningur sem félagið hefur gert frá upphafi,“ segir Þorsteinn Högni Gunnarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá CCP, um samstarfssamning CCP og Sony, sem var kynntur í Los Angeles í nótt.
Um er að ræða samning um útgáfu á tölvuleiknum DUST 514 fyrir Playstation 3 leikjatölvuna.
Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að samningurinn marki tímamót fyrir fyrirtækið. „Við erum að fara inn á leikjatölvumarkaðinn með fulltingi eins stærsta risans á þeim markaði, þannig að þetta gefur okkur gríðarleg sóknartækifæri hvað varðar markaðssetningu leiksins og tækifæri til að aðgreina hann frá samkeppninni.“
Þá bendir Þorsteinn á að á hverju ári komi út hundruðir tölvuleikja fyrir PlayStation 3. Það séu hins vegar örfáir sem fái slíkan stuðning frá Sony. Samningurinn er gerður á heimsvísu og fær CCP stuðning frá öllum helstu deildum Sony sem vinna að því að markaðssetja og selja PlayStation leiki um allan heim, að sögn Þorsteins.
Samningurinn sé því afar umfangsmikill en Þorsteinn segist ekki geta tjáð sig um hann í smáatriðum.
Aðspurður segir hann að Beta-prófanir á Dust muni hefjast síðar á þessu ári þar sem leikurinn verður prufukeyrður með raunverulegum leikmönnum. Ráðgert er að leikurinn komi út sumarið 2012 og mun hann fylgja í kjölfarið á EVE Online sem kom út árið 2003.
Þorsteinn segir að það sem sæti tíðindum með Dust 514, sem var fyrst kynntur á ráðstefnu í Köln í Þýskalandi fyrir tæpum tveimur árum, sé að hann sé svokallaður MMO leikur, eða leikur sem margir geta spilað í gegnum netið. Leikurinn verði svo beintengdur EVE Online netspilunarleiknum, sem hefur verið flaggskip CCP.
Leikurinn sé því ólíkur hefðbundnum leikjum fyrir leikjatölvur sem séu settir í umbúðir og endist í nokkra mánuði. Þá sé sagan öll.
„Við erum að fara standsetja þjónustu með Sony sem við búumst fastlega við að verði í loftinu til margra ára. Og vonandi sambærilega líkt því sem verið hefur með EVE, sem hefur nú verið í rekstri í átta ár,“ segir Þorsteinn.