Voyager-geimförin tvö sem bandaríska geimferðarstofnunin NASA sendi af stað á 8. áratugnum hafa komist að því að á ytri mörkum sólkerfis okkar séu nokkurs konar segulbólur og þau séu ekki eins slétt og felld eins og áður var talið.
Geimförin eru nú stödd í um 16 milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðu, í ystu lögum áhrifasvæðis sólarinnar þar sem hægist og sveigist á sólvindum undan þrýstingi frá öðrum kröftum eins og efni sem kemur frá öðrum stjörnum í vetrarbrautinni.
Segulbólurnar verða til þegar hlutar af segulsviði sólarinnar brotna upp og renna aftur saman undir þrýstingnum. Þessar bólur eru allt að 160 milljón kílómetrar að breidd og gætu geimförin því tekið margar vikur að fara í gegnum eina slíka.
Vísindamenn höfðu áður leitt líkum að því að segulsvið sólarinnar sveigði í tiltölulega tignarlegum boga við endamörk sín. Þeim hugmyndum hefur nú verið fleygt á haugana í ljósi þessara nýju upplýsinga frá Voyager-tvíeykinu.