Evrópska geimferðamiðstöðin sendi í gær skipun til Rósettu, mannlausrar geimflaugar, sem er á 7,1 milljarða kílómetra langri leið á stefnumót við halastjörnu, að „leggjast í dvala“ til ársins 2014.
Í maí árið 2014 mun Rósetta, ef allt gengur upp, hitta halastjörnuna 67/P Churyumov-Gerasimenko og senda rannsóknarbúnað á stærð við ísskáp niður á yfirborð hennar.
Skipunin var send til Rósettu í gær um hádegisbilið um að slökkva á öllum stýribúnaði um borð, þar á meðal talstöðvarsambandi til Jarðar. Sólarorkuknúnar rafhlöður um borð í Rósettu knýja niðurteljara sem mun svo ræsa vekjaraklukku Rósettu klukkan 10:00 að staðartíma Greenwich 20. janúar árið 2014.
Sólarrafhlöðurnar munu jafnframt knýja nokkra hitara til þess að koma í veg fyrir að Rósetta ofkælist í dvalanum.
Halastjörnur eru áhugamönnum um innviði sólkerfisins hugleiknar. Þær eru taldar vera eins og „snjóboltar“ í sólkerfinu sem þeysast um og draga á eftir sér hala úr ís og geimryki.
Dvalinn er einmanalegasti tíminn á 10 ára ferð Rósettu sem hefur þurft að spila eins konar plánetulegan billjarð til að komast á réttan stað og nýta sér þyngdarkrafta frá Jörð og Mars sem teygjubyssu inn á rétta braut.