Skugganet og leynileg símkerfi

Leynilegu fjarskiptakerfin eru ætluð til þess að auðvelda andófsmönnum í …
Leynilegu fjarskiptakerfin eru ætluð til þess að auðvelda andófsmönnum í einræðisríkjum að skipuleggja baráttu sína, líkt og í Sýrlandi, Líbíu og víðar. Reuters

Bandaríkjastjórn vinnur að því að setja upp „skugga“ netþjónustu og farsímakerfi sem andófsmenn geta notað í baráttu sinni gegn alræðisstjórnum. Slíkar stjórnir grípa oft til ritskoðunar eða þess að slökkva á fjarskiptakerfum.

Dagblaðið New York Times greinir frá þessu í dag. Þar kemur fram að í aðgerðunum felist m.a. að byggja upp sjálfstæð farsímakerfi innan umræddra landa. Verkefnið fékk styrk upp á tvær milljónir dollara frá bandaríska utanríkisráðuneytinu.

Verkefnið þykir minna helst á spennandi njósnaskáldsögu þar sem sakleysislegum búnaði er raðað saman til að byggja upp internetþjónustu.

The New York Times hefur aflað sér mikilla gagna af ýmsu tagi um verkefnið. Blaðið hefur upplýsingar um að í sumum verkefnunum sé beitt nýrri tækni sem bandaríkjastjórn er að þróa í öðrum er notaður búnaður sem hakkarar, eða tölvuþrjótar, hafa búið til í svonefndri „frelsunar-tæknihreyfingu“ sem fer eins og eldur í sinu um heiminn.

Bandaríska utanríkisráðuneytið er m.a. að fjármagna gerð leynilegra þráðlausra netkerfa sem gerir andófsmönnum kleift að eiga rafræn samskipti utan vébanda stjórnvalda í löndum á borð við Íran, Sýrland og Líbíu. 

Þá munu bandaríska utanríkisráðuneytið og hermálaráðuneytið Pentagon hafa varið að minnsta kosti 50 milljónum dollara til að byggja upp sjálfstætt farsímanet í Afganistan. Fjarskiptamöstur sem njóta verndar í herstöðvum eru m.a. notuð í kerfinu. Talíbanar hafa oft truflað fjarskiptakerfi afganska ríkisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert