Kynlífið verði í gegnum netið

Konur munu geta pantað sinn uppáhaldsdraum þar sem uppáhaldselskhuginn kemur …
Konur munu geta pantað sinn uppáhaldsdraum þar sem uppáhaldselskhuginn kemur við sögu. Mynd/Úr skýrslu Ians Pearson

Eftir nítján ár eða svo geta gestir hótelkeðjunnar Travelodge vænst þess að vera boðið upp á tækjabúnað sem gerir þeim kleift að njóta ásta með ástvinum sínum þótt þeir séu víðsfjarri.

Augnlinsur með myndvörpun sem hermir eftir mannsauganu gefa notandanum þá tilfinningu að makinn sé fyrir framan hann.

Sagt er frá málinu á vef breska dagblaðsins Daily Telegraph en ekki fylgir sögunni úr hverju öðru búnaðurinn muni samanstanda af.

Kemur þar jafnframt fram að linsurnar megi stilla svo að útlit makans taki þeim breytingum sem notandinn óskar sér.

Rætt er við framtíðarfræðinginn Ian Pearson en í skýrslu hans, Future of sleep, sem má nálgast hér, segir að um þetta leyti, eða 2030, verði hægt að panta uppáhaldsdrauminn og upplifa hann með hjálp búnaðar, líkt og gert sé í kvikmyndinni Inception.

Þá muni skynjarar fylgjast með heilavirkni og nota upplýsingarnar til að velja heppilegasta tímann til að fara á fætur, með tilliti til lífseðlisfræðilegrar greiningar á hámarksnýtingu svefntímans.

Pearson telur að árið 2030 muni sem fyrr þriðjungur mannsævinnar fara í svefn en að þá verði komin fram tækni sem umbylti þeirri reynslu að sofa, ef svo má að orði komast.

Ljótar hótelinnréttingar munu heyra sögunni til því hótelgestir munu geta stillt veggfóðrið eftir eigin óskum, svo sem með því að panta tiltekin málverk eða myndir af fjölskyldunni til að stilla upp við rúmstokkinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert